Alls hafa 25 einstaklingar lokið sérstakri endurhæfingarmeðferð á Reykjalundi fyrir þá sem etja við langvarandi einkenni vegna kórónuveirusýkingar.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Miðflokksins, um fjölda sýkinga og andláta af völdum kórónuveirunnar.
Segir þar að 29 séu í meðferðinni á Reykjalundi núna. Fyrr á þessu ári voru 30 einstaklingar á biðlista eftir að komast í endurhæfingarmeðferðina.
Bent er á að mjög erfitt sé að áætla hversu margir muni þurfa á endurhæfingu að halda eftir að hafa sýkst af veirunni.
„Ætla má að aðeins hluti þeirra sem sýkst hafa af veirunni og glíma við langvarandi einkenni hafi leitað eftir endurhæfingu á Reykjalundi,“ segir í svarinu.
Stofnuninni hafi borist beiðnir frá 70 einstaklingum af þeim u.þ.b. 1.900 einstaklingum sem lokið höfðu einangrun vegna kórónuveirusmits í september á síðasta ári, eða um 4%.
Um síðustu áramót höfðu 5.130 lokið einangrun. Ef áætlað er að 4% þeirra eigi eftir að leita til Reykjalundar eru það um 120 einstaklingar.