Í dag kláraðist fyrsta umræða um fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, á Alþingi.
Frumvarpið snýst um styrkjakerfi til einkarekinna fjölmiðla, alls allt að fjögurhundruð milljónir á ári, vegna hluta kostnaðar við laun vegna fréttaöflunar og miðlunar, ritstjórnar, myndatöku og prófarkalesturs. Gerður er greinamunur á almennum fjölmiðlum og staðarmiðlum í frumvarpinu.
Fyrsta umræða hófst fyrir þingfrestun fyrir jól og var síðan tekin upp aftur í dag. Margir þingmenn lögðu orð í belg og skoðanir skiptar eins og við er að búast.
Staða Ríkisútvarpsins bar á góma eins og áður þegar staða einkarekinna fjölmiðla er rædd enda náskyldar umræður.
Flestir þingmenn sem tóku til máls taka undir lýðræðislegt mikilvægi fjölmiðla og að rekstrargrundvöllur þeirra hafi farið hrakandi síðustu ár. Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, virtist einn alfarið á móti styrkjakerfinu.
Í kjölfar fyrstu umræðu fjölmiðlafrumvarpsins fór fram á Alþingi umræða um frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um upplýsingarétt almennings gagnvart Ríkisútvarpinu, fjölmiðils í almannaþágu.
Með því samþykktu myndu upplýsingaákvæði í lögum um Ríkisútvarpið kveða á um að nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf, þegar umsóknarfrestur er liðinn, föst launakjör annarra starfsmanna en æðstu stjórnenda, launakjör æðstu stjórnenda, og áherslur og kröfur um árangur í starfi æðstu stjórnenda sem fram koma í ráðningarsamningi eða öðrum gögnum og upplýsingar um menntun þeirra, einnig um starfsmenn Ríkisútvarpsins.
Þá myndu upplýsingar um viðurlög sem æðstu stjórnendur hafa sætt, þ.á.m. vegna áminningar og brottvísana, enda séu ekki liðin meira en fjögur ár frá þeirri ákvörðun sem um ræðir.