Vörumerki pítsustaðarins Slæs í Garðabæ ber mikil líkindi með vörumerki samskonar staðar í Bandaríkjunum. Síðarnefndi staðurinn ber heitið Firecraft Artisan Pizza og er staðsettur í Suður-Dakóta. Er staðurinn þekktur fyrir handgerðar ítalskar pítsur.
Eins og mbl.is greindi hafa bræðurnir Einar Ágústsson og Ágúst Arnar Ágústsson, sem jafnan eru kenndir við trúfélagið Zuism eða hópfjármögnunarsíðuna Kickstarter, opnað pítsustaðinn Slæs. Félagið Megn ehf. er skráð fyrir vefsíðu Slæs en félagið er í eigu Einars sem einnig er stjórnarmaður. Ágúst Arnar er varamaður í stjórn.
Bræðurnir hafa verið duglegir að rata í fjölmiðla vegna viðskiptaævintýra síðastliðin ár. Báðir voru þeir ákærðir fyrir fjársvik og peningaþvætti við starfsemi trúfélagsins Zuism en þeir neituðu báðir sök við þingfestingu málsins í desember á síðasta ári.
Eins og sjá má á myndinni hér að neðan virðist sem hluti vörumerkis Firecraft sé nú orðið að aðalvörumerki Slæs. Efst í vörumerki Firecraft er mynd af pítsusneið en útlit er fyrir að bræðurnir hafi skorið það út og nýtt sem vörumerki á eigin stað.