Veðurstofa Íslands lýsir yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi en talsverð úrkoma hefur mælst á annesjum þar síðan í gærmorgun.
Síðdegis í gær féll snjóflóð yfir Ólafsfjarðarveg og lokaði honum en í dag sáust talsvert stór snjóflóð úr Ósbrekkufjalli í Ólafsfirði og féll eitt þeirra fram í sjó.
Siglufjarðarvegur og Ólafsfjarðarvegur milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar eru lokaðir vegna veðurs.
Spár gera ráð fyrir stífum norðlægum áttum með snjókomu og éljum fram yfir helgi.
Ekki er talin hætta í byggð sem stendur en viðvörun hefur verið gefin út fyrir hesthúsahverfi í Ólafsfirði undir Ósbrekkufjalli, að því er fram kemur á facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.