Gríðarleg fækkun var á skipakomum til Faxaflóahafna árið 2020, borið saman við árin á undan. Heimsfaraldur kórónuveirunnar hafði þessi áhrif.
Fram kemur í frétt á heimasíðu Faxaflóahafna að skipakomur voru alls 1.106 í fyrra. Árið 2019 voru skipakomur 1.378. Fækkunin milli ára er 272 skipakomur eða 25%.
Samdráttur í skipakomum varð á eftirfarandi tegundum skipa: Flutningaskip (13%), fiskiskip (12%), farþegaskip (96%), rannsóknar- og varðskip (37%). Hins vegar var fjölgun á skipakomum annarra skipa (42%), sem og tankskipa (21%), að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.