Kostnaður Ríkisútvarpsins vegna sekta- og bótagreiðslna á árunum 2007-2019 nam 11.810.938 krónum. Þetta kemur fram í svari mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni, þingmanni Miðflokksins.
Segir í svarinu að um sé að ræða samtals fjórtán mál; sex stjórnvaldssektir fjölmiðlanefndar, þrjár stjórnvaldssektir Fjármálaeftirlitsins, fjögur dómsmál og eitt sektarmál hjá Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU.
Miðað er við verðlag ársins 2019, miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs.
Tekið er fram að ekki sé hægt að veita upplýsingar um lögfræðikostnað vegna málanna, þar sem ekki hefur verið haldið utan um þær í bókhaldi stofnunarinnar.
Enn fremur segir að ekki liggi fyrir hversu mikill tími starfsmanna hafi farið í úrvinnslu málanna, þar sem stofnunin notist ekki við verkbókhald. Ekki sé því hægt að meta kostnað sem hlaust af þeirri vinnu.
Hæsta greiðslan nam 2.691.247 krónum og er færð til bókar árið 2016. Ekki er ljóst hvort þar sé um að ræða greiðslu bóta til Guðmundar Spartakusar fyrir umfjöllun um fíkniefnasmygl í Brasilíu og Paragvæ og meinta aðild Guðmundar.
Stofnunin greiddi Guðmundi 2,5 milljónir í málskostnað og miskabætur samkvæmt samningi sem gerður var þeirra í millum. Því samkomulagi náðu Ríkisútvarpið og Guðmundur árið 2017.
Hæstiréttur átti síðar eftir að sýkna Sigmund Erni Rúnarsson, sjónvarpsmann og þáverandi dagskrárstjóra Hringbrautar, af tveggja milljóna króna skaðabótakröfu Guðmundar vegna meintra meinyrða í svipuðu máli.