Alls greindust tveir með kórónuveiruna innanlands í gær. Báðir voru í sóttkví. Þetta kemur fram á Covid.is. 20 eru á sjúkrahúsi, sem er fjölgun um einn frá því í gær. Enginn er á gjörgæslu. 127 eru í einangrun, sem eru 16 færri en í gær.
Fjögur smit greindust á landamærunum. Eitt smit var virkt en beðið er mótefnamælingar í hinum þremur tilfellunum.
Tekin voru 1.025 sýni, þar af 713 einkennasýni og 273 á landamærunum.
Þeim fækkar töluvert sem eru í sóttkví. Í dag eru þeir 149 en í gær voru þeir 177.
14 daga nýgengi innanlandssmita á hverja 100.000 íbúa er 15,5 og lækkar þar með um 0,6 frá því í gær. Nýgengi smita á landamærunum fer úr 26,2 í 25,4.
Samtals eru 83 í einangrun á höfuðborgarsvæðinu, sem er fækkun um 10 frá því í gær. Næstflestir eru í einangrun á Suðurlandi, eða 15, og á Suðurnesjum eru 14 í einangrun.