Vinnumálastofnun (VMST) er að gera átak til þess að efla vinnumarkaðsúrræði fyrir atvinnulausa á árinu.
„Á síðasta ári var áherslan lögð á að koma fólki í þjónustuna og tryggja framfærsluna en nú erum við á fullu við að skipuleggja þessi úrræði og hjálpa fólki við að halda virkni,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri VMST.
Hátt í ellefu þúsund manns hafa nú verið á atvinnuleysisskrá í hálft ár eða lengur og eru þeir orðnir fleiri en þegar mest var á árunum eftir efnahagshrunið 2008. Unnur segir að ógnvænleg fjölgun hafi átt sér stað í hópi langtímaatvinnulausra.
Meðal átaksverkefna er svonefnt Starf með styrk, þar sem boðið er upp á ráðningarstyrki sem eiga að auðvelda atvinnurekendum að ráða starfsfólk. Unnur segir heilmikinn áhuga á þessu úrræði og samningum um það hafi fjölgað.