Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) telur að íslensk löggjöf sem takmarkar aðgengi að leigubifreiðamarkaðnum brjóti í bága við EES-samninginn. Stofnunin tók í dag ákvörðun um fyrsta skrefið í samningsbrotamáli gegn Íslandi fyrir að virða ekki EES-reglur um staðfesturétt á leigubifreiðamarkaðinum.
Greint er frá þessu í tilkynningu.
Þar segir að núverandi löggjöf á Íslandi takmarki úthlutun atvinnuleyfa fyrir leigubifreiðaakstur innan takmörkunarsvæða. Reglur um úthlutun atvinnuleyfa innan skilgreindra svæða séu ekki hlutlægar og hygli núverandi leyfishöfum.
„Þetta felur í sér mögulegar aðgangshindranir og hindrar fyrir að nýir aðilar hefji starfsemi í atvinnugreininni. Löggjöfin skyldar einnig leyfishafa til að hafa leigubifreiðaakstur sem meginatvinnu og krefst þess að viðkomandi sé tengdur leigubifreiðastöð,“ segir í tilkynningunni.
Í formlegu áminningarbréfi, sem sent var Íslandi í dag, kemst ESA að þeirri niðurstöðu að löggjöf um leigubifreiðar á Íslandi feli í sér óréttmæta takmörkun á staðfesturétti og brjóti því í bága við EES-samninginn.
„Að fjarlægja óréttmætar hindranir til að hefja störf í hvaða atvinnugrein sem er er mikilvægt fyrir góða og fulla framkvæmd innri markaðarins, sagði Frank J. Büchel, stjórnarmaður ESA. „Með því að fjarlægja hindranir að leigubifreiðamarkaðinum er hægt að stuðla að nýsköpun í atvinnugreininni sem leiðir til lægri fargjalda, betri þjónustu og fleiri valmöguleika fyrir neytendur.”
Formlega áminningarbréfið sem sent var Íslandi í dag er fyrsta skrefið í meðferð samningsbrotamáls. Ísland hefur nú tvo mánuði til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ESA ákveður hvort taka eigi málið lengra.