Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir harðlega fyrirætlaðri sölu á hluta Íslandsbanka. Miðstjórn ASÍ ályktaði um þetta í dag.
Miðstjórnin telur að óvissuaðstæður sem uppi eru séu ástæða til þess að selja ekki hluta af Íslandsbanka eins og áform ríkisstjórnarinnar standa nú um.
„Miðstjórn ASÍ gagnrýnir þann flýti sem einkennir ferlið og telur ekki hafa verið færðar fram fullnægjandi röksemdir fyrir sölunni. Mikilvægt er að ríkið, fyrir hönd almennings, sé með aðkomu að fjármálamarkaði og haldi uppi samfélagslegum sjónarmiðum við endurreisn efnahagslífsins,“ segir í tilkynningu frá Miðstjórn ASÍ.
Þá segir í tilkynningunni að sérstakelga þurfi að gæta að hagsmunum lántakenda sem margir ganga í gegnum tímabundna erfiðleiak vegna Covid-kreppunnar.
Guðrún Johnsen, hagfræðingur og lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn og efnahagsráðgjafi VR, hefur gagnrýnt fyrirhugaða sölu á hluta Íslandsbanka og rökræddi hana m.a. við Ásdísi Kristjánsdóttur, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í Silfrinu á sunnudaginn.