Sala á mjólkurafurðum minnkaði á nýliðnu ári, þriðja árið í röð. Að þessu sinni er ástæðan talin fækkun ferðamanna vegna kórónuveirufaraldursins. „Ég tel að kúabændur og mjólkuriðnaðurinn megi vel við una, miðað við brotthvarf ferðamanna, að ekki ekki varð meiri samdráttur.
Þetta segir Jóhanna Hreinsdóttir, formaður stjórnar Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði, í Morgunblaðinu í dag.
Sala á öllum flokkum mjólkurafurða nema rjóma minnkaði á síðasta ári, miðað við árið á undan. Mesti samdrátturinn var í sölu á skyri á innanlandsmarkaði, 8,7%. Ef sala í öllum vöruflokkum er lögð saman sést að samdrátturinn nemur 1.236 þúsund tonnum/lítrum, eða um 2,3%. Þess ber að geta að um mismunandi mælieiningar er að ræða og mismikil mjólk er á bak við vörurnar.
Jóhanna segir að samdrátturinn skýrist aðallega af brotthvarfi ferðamanna. Færri neytendur hafi því verið í landinu dag hvern að meðaltali miðað við árið á undan.