Framlínustarfsmenn og íbúar hjúkrunarheimila á Húsavík sem fengu bóluefni við Covid-19 í lok desembermánaðar fengu seinni bóluefnaskammtinn í gær og eru því komnir með fulla bólusetningu gegn Covid-19.
Þetta staðfestir Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, í samtali við mbl.is.
Sambærileg bólusetning hefst á morgun á höfuðborgarsvæðinu.
Hann segir að almennt sé fólki létt. Það sé gott að vera búin að bólusetja viðkvæmasta hópinn og sömuleiðis þá starfsmenn sem voru í áhættuhópum.
„Nú er búið að bólusetja flesta á hjúkrunarheimilum þá er þarna tekinn út alveg verulegur áhættuþáttur,“ segir Jón Helgi.
Seinni bólusetningu hópsins á Húsavík er því nokkurn veginn lokið þó Jón Helgi segi að mögulega eigi nokkrir eftir að fá seinni skammtinn.
Meira bóluefni er væntanlegt til Húsavíkur á morgun, fimmtudag, þó slæmt veður gæti sett þá áætlun úr skorðum. Þá er ætlunin að bólusetja fólk á sambýlum, í heimahjúkrun og sömuleiðis einstaka framlínustarfsmenn og íbúa dvalar- og hjúkrunarheimila sem ekki fengu bólusetningu fyrir áramót.