Skylda að hafa berjarunna og grasflöt í Vogabyggð

Skylt er að hafa grasflöt á helmingi pallsins og í …
Skylt er að hafa grasflöt á helmingi pallsins og í það minnsta einn berjarunna, samkvæmt eignaskipulagi í Vogabyggð. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, furðar sig á því hve stranga skilmála Reykjavíkurborg hefur sett fyrir eignir í nýju hverfi í Vogabyggð, að því er fram kemur í Facebook-færslu sem hann birtir í dag.

Fjölskyldan fékk sérafnotareit með fyrirhuguðum palli utan húsið en verktakarnir stöðvuðu þegar lokið var við helming pallsins – samkvæmt skilmálunum þarf nefnilega að vera gras yfir helmingi séreignaflatarins og í það minnsta einn berjarunni í hverjum reit. 

Samkvæmt skilmálum fyrir mannvirki og byggingar á svæði tvö í …
Samkvæmt skilmálum fyrir mannvirki og byggingar á svæði tvö í Vogabyggð verður helmingur sérnotaflatarins að vera þakinn grasi og með einn berjarunna. Skjáskot/Skilmálar fyrir Vogabyggð 2

„Þegar ég spurði hvers vegna þeir stoppuðu sendi hann mér skilmálana þar sem kveðið er á um þetta. Eigandinn segir að þeir séu bundnir. Mér fannst þetta svo steikt að ég þurfti að hafa samband við borgina og það var ekkert auðvelt,“ segir hann í samtali við mbl.is en í færslunni gagnrýnir Guðmundur einmitt ósveigjanleika kerfisins hjá stofnunum.

„Sóun á tíma og peningum“

„Okkur finnst pínulítill grasblettur og berjarunni innan lítils skjólveggjar mjög ópraktísk útfærsla. Við spurðum hvort verktakinn gæti ekki frekar sett pallinn yfir restina af reitnum, en það er ekki hægt. Verktakanum er skylt að setja gras og berjarunna á reitinn, því annars fær hann ekki lokaúttekt frá borginni,“ skrifar Guðmundur. Hann hafi verið í samskiptum við borgina sem hafa engu skilað.
„Borgin kýs frekar að láta tyrfa reitinn og koma berjarunna fyrir og láta okkur síðan um að rífa upp blettinn þegar að verkinu er lokið. Þvílík sóun á tíma og peningum,“ skrifar hann í niðurlagi.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fyrirkomulag í nýrri Vogabyggð kemst í fréttirnar en það vakti nokkra athygli þegar ákveðið var að pálmatré skyldu rísa í byggðinni. Kallað var eftir tillögum að verkum sem myndu styrkja ákveðin markmið um að myndlist verði veigamikill og afgerandi hluti umhverfis og mannlífs í Vogabyggð til þess að skapa ögrandi umhverfi fyrir alla aldurs- og þjóðfélagshópa.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert