Tala í síma en hringja ekki í símanúmer fólks

Myndspjall. Þeim fjölgar sem hringja ekki í símanúmer fólks.
Myndspjall. Þeim fjölgar sem hringja ekki í símanúmer fólks. Unsplash/Raj Rana

Notkun gagnakorta, SIM-korta fyrir gagnaflutninga en ekki símtöl, hefur aukist. Guðmundur Jóhannsson, samskiptastjóri Símans, taldi að gagnakort séu fyrst og fremst sett í spjaldtölvur og 4G netbeina.

Morgunblaðið frétti af ungu fólki sem notar gagnakort í farsíma í stað hefðbundinna símakorta. Það hringir aldrei í símanúmer heldur notar forrit eins og t.d. Facetime eða Messenger ef það vill tala við aðra. Skilyrði er að viðmælandinn sé með sama forrit. Sú spurning vaknaði hvort slíkir notendur fái t.d. neyðarskilaboð (SMS) sem yfirvöld senda í öll snjalltæki á tilteknu svæði ef hætta steðjar að.

„Það er símanúmer á gagnakortinu þótt það sé lokað fyrir talrásina og þú getir hvorki hringt né svarað venjulegum símtölum. Þú kemst hins vegar á netið. SMS-skilaboð eins og neyðarskilaboð myndu komast til skila og rafræn skilríki virka. Eins er hægt að hringja í neyðarsímann 112. Það er bara almenna símtalið sem dettur út,“ sagði Guðmundur. Hann gat sér þess til að það sé einkum yngra fólk sem notar gagnakort í síma. Sá hópur er nýjungagjarn og fljótur að tileinka sér möguleika tækninnar.

„Við höfum horft upp á hnignun talsímans og heimasímans. Unga fólkið notar nýjar leiðir til að eiga í samskiptum,“ sagði Guðmundur í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert