Mesta vatnstjónið í byggingum Háskóla Íslands hefur orðið á Háskólatorgi og í Gimli. Útlit er fyrir að tjónið muni hafa áhrif á kennslu þar til einhverra mánaða. Þetta segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
„Við þurfum að meta þetta betur en því miður lítur þetta ekki vel út,“ segir Jón Atli og nefnir að skýrari mynd af tjóninu fáist þegar birtir.
Spurður hversu mikið tjónið gæti orðið í heildina segist hann ekki geta metið það að svo stöddu. „En það er gríðarlegt tjón, sérstaklega í Gimli og á Háskólatorgi. Á fyrstu hæðinni [á Háskólatorgi] erum við með þessar stóru kennslustofur og þar er mikið tjón. Það þarf að fara í mikla vinnu til þess að gera þetta starfhæft aftur,“ greinir hann frá.
Kennsla hefur að mestu leyti verið í gegnum fjarnám vegna kórónuveirunnar. Þó hefur verið hægt að nýta stóru stofurnar á Háskólatorginu til kennslu. Í Gimli eru aðallega skrifstofur, þar á meðal skrifstofa félagsvísindasviðs, en einhverjar kennslustofur eru þar líka. „Því miður hefur Gimli farið mjög illa út,“ segir Jón Atli. „Það þarf að fara vandlega yfir hvernig starfsemin verður í framhaldinu.“
Tilkynning hefur verið send til nemenda og starfsfólks skólans og munu þær halda áfram að berast eftir því sem fleiri tíðindi verða ljós.