Krefjast skýringa á rannsókn lögreglu

mbl.is/Eggert

Nefnd um eftirlit með lögreglu krefst skýringa á störfum lögreglu við rannsókn á andláti ungrar stúlku sem lést úr MDMA eitrun árið 2019. Ríkissaksóknari gerir einnig athugasemdir við rannsóknina. Þetta kom fram í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld. 

Í þættinum var fjallað um mál Perlu Dísar Bachmann Guðmundsdóttur sem lést á heimili kærasta síns 22. september 2019, sem var nýorðin nítján ára. Fram kom, að í fyrstu hefðu aðstandendur Perlu haldið að andlátið hefði verið slys. Fram kom í þættinum að þegar niðurstöður krufningar sýndu tíu- til tuttugufaldan dauðaskammt af eiturlyfinu MDMA í blóði hennar hafi það vakið það upp spurningar um hvernig Perla gat hafa innbyrt svo stóran skammt af lyfinu fyrir slysni.

Fram kemur að nefnd um eftirlit með lögreglu og ríkissaksóknari geri margháttaðar og alvarlegar athugasemdir við rannsókn lögreglu á andlátinu. Segir m.a. að margt í rannsókn lögreglu hafi orkað tvímælis.

Samkvæmt gögnum málsins hafi dánarstund Perlu Dísar verið ókunn, ekki sé vitað með vissu hvort kærastinn hennar hafi verið inni í herbergi hjá henni þegar hún dó, tímarammi atburðarásarinnar sé óljós og réttarkrufning svaraði því ekki hvernig MDMA komst í líkama Perlu svo fátt eitt sé nefnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert