Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar karlmanns sem beraði á sér kynfærin fyrir framan nemendur í Seljaskóla í Breiðholti um hádegisbil í gær. Önnur tilkynning barst svo lögreglu í morgun, en í henni var einnig greint frá mjög svo óviðeigandi háttsemi mannsins. Var það á sama vettvangi, þ.e. við Seljaskóla. Talið er líklegt að um sama manninn sé að ræða.
Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að maðurinn sé sagður hár og grannur og vera í kringum þrítugt. Hann var klæddur í svartar gallabuxur, úlpu og með svarta húfu og grímur.
Þeir sem búa yfir upplýsingum um málið, eða telja sig vita hvaða maður á í hlut, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu. Upplýsingum má koma á framfæri í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.