Mikil þörf fyrir aðstoð

Tilbúnar matargjafir hjá Fjölskylduhjálp Íslands.
Tilbúnar matargjafir hjá Fjölskylduhjálp Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kaupfélag Skagfirðinga hefur ákveðið að framlengja fram yfir páska matvælaaðstoð við þá sem eiga í erfiðleikum vegna atvinnumissis af völdum kórónuveirufaraldursins.

„Samstarfið við hjálparstofnanir gekk vel á síðasta ári og þörfin er enn mikil, atvinnuleysi er mikið og ekkert farið að breytast í þeim efnum enn þá. Niðurstaða okkar var, eftir að hafa rætt við hjálparstofnanir og fleiri sem til þekkja, að það væri skynsamlegt að halda þessu samstarfi áfram,“ segir Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri KS.

KS og dótturfyrirtæki þess eru með fjölbreytta matvælaframleiðslu. Ákváðu stjórnendur fyrirtækisins að útvega hjálparstofnunum sem veita matvælaaðstoð matvæli síðustu mánuði ársins. Hjálpaði það þeim við jólaúthlutanir í desember. Upphaflega var reiknað með 40 þúsund máltíðum en niðurstaðan varð sú að Kaupfélagið gaf um 90 þúsund máltíðir.

Samkomulag hefur verið gert við fjórar helstu hjálparstofnanir landsins um úthlutun matvælanna og verður fyrirkomulagið það sama og fyrir jólin.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, að þörfin fyrir mataraðstoð sé enn mjög mikil. Margir hafi samband. Fólkið hafi ekki fjármuni til matar- og lyfjakaupa. „Við munum geta brúað bilið eins og mögulegt er með aðstoð KS,“ segir Ásgerður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert