Ný útgáfa af smitrakningarappinu í þróun

Smitrakningarappið gerir núna ekki annað en að rekja ferðir þess …
Smitrakningarappið gerir núna ekki annað en að rekja ferðir þess sem er með það, án þess að halda utan um hverja hann hittir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ný útgáfa af smitrakningarappinu Rakning C-19 er í þróun og er hún nánast tilbúin. Um er að ræða uppfærslu sem heimilar ákveðna bluetooth-tækni sem getur auðveldað smitrakningu. Í sumar var ætlunin að koma breytingunni í gegn með aðstoð Google og Apple en báðir tæknirisarnir hættu svo við áformin. 

Þetta segir Ingi Stein­ar Inga­son, sviðsstjóri miðstöðvar ra­f­rænna heil­brigðis­lausna hjá embætti land­lækn­is, í samtali bið mbl.is. 

„Við erum að þróa nýja útgáfu af appinu sem er eiginlega tilbúin. Við erum í lokaprófunum og frágangi núna þar sem við erum sem sagt að nýta þessa bluetooth-tækni,“ segir Ingi Steinar. 

Uppfærslan virkar þannig að símar skiptast á svokölluðum lyklum með bluetooth-tækninni ef þeir eru nægilega nálægt hvor öðrum. Ef upp kemur smit er þá hægt að sækja lyklana í síma hins smitaða og senda skilaboð til þeirra sem hafa komist í návígi við hann um að þeir eigi að fara í sóttkví. 

Smitrakningarteymi almannavarna ríkislögreglustjóra að störfum.
Smitrakningarteymi almannavarna ríkislögreglustjóra að störfum. Ljósmynd/Lögreglan

Tæknirisarnir drógu vilyrðin til baka

Marga rámar eflaust í umræðu um þessa tækni enda var breytingin fyrirhuguð í sumar en þá var ekki um sérstakt app að ræða heldur virkni í símunum sjálfum sem Apple og Google hefðu þurft að heimila. 

„Þá voru Google og Apple búnir að gefa okkur undir fótinn með að við gætum bara virkjað þetta í stýrikerfinu í símunum og þyrftum í raun ekki appið. Síðan drógu þeir það til baka og vildu einbeita sér að Bandaríkjunum og voru ekki tilbúnir til þess að hleypa okkur í gegn með þetta,“ segir Ingi Steinar. 

Matsatriði hvort þörf sé á appinu

Þá hófst þróun appsins sem nú er á lokametrunum. 

„Við munum meta það eftir u.þ.b. hvort það sé þörf á þessu eða hvort nægilega margir verði bólusettir á næstunni svo appið verði óþarft. Þá geymum við þetta apparat til betri tíma. Við ætlum ekki að fara að uppfæra appið í öllum símum landsins ef það er engin þörf á því þá. Ef bólusetningar dragast fram eftir ári munum við örugglega dreifa appinu,“ segir Ingi Steinar og bætir við: 

„Ef við förum í þessa uppfærslu þá mun fólk bara fá skialboð í símann hjá sér um að það sé komin ný útgáfa af appinu. Fólk samþykkir þá bara að það noti þá Bluetooth-virkni og getur slökkt á virkninni fyrir staðsetningu.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka