Samningur stjórnvalda við Pfizer trúnaðarmál

Bóluefni Pfizer/BioNTech má sjá hér. Leynd hvílir yfir samningi íslenskra …
Bóluefni Pfizer/BioNTech má sjá hér. Leynd hvílir yfir samningi íslenskra stjórnvalda við Pfizer. AFP

Samningur stjórnvalda við lyfjaframleiðandann Pfizer um bóluefni við Covid-19 er trúnaðarmál, að sögn samskiptafulltrúa Pfizer. Eins og greint var frá í fréttum í vikunni fékk Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Miðflokksins ekki aðgang að bóluefnasamningum stjórnvalda við lyfjaframleiðendur þegar hann óskaði þess nýverið. 

„Viðræður okkar við stjórnvöld og samningar eru trúnaðarmál. Við höfum ekkert frekar að segja um skilmála samningsins,“ segir í skriflegu svari frá samskiptafulltrúanum við fyrirspurn mbl.is. 

Í fyrirspurninni var spurt hvort Pfizer hafi óskað þess að leynd hvíldi yfir samningnum eða óskað þess að þingmenn fengju hann ekki í hendurnar. Ekki fengust svör við því hvort trúnaðurinn væri tilkominn vegna beiðni stjórnvalda um slíkt eða beiðni Pfizer. 

Fjórir samningar í höfn, enginn þeirra opinber

Sem fyrr segir var Gunnari Braga synjað um aðgang að samn­ing­um sem ríkið hef­ur gert við lyfja­fram­leiðend­ur um kaup á bólu­efni við Covid-19. Í bréfi til Gunn­ars Braga vís­ar ráðuneytið til upp­lýs­ingalaga og seg­ir er­indið falla und­ir tak­mark­an­ir á upp­lýs­inga­rétti.

Í bréfinu segir að hvorki aðild­ar­ríki ESB né Nor­eg­ur hafi af­hent sam­bæri­lega samn­inga og að það sé mat ráðuneyt­is­ins að slík af­hend­ing geti spillt sam­skipt­um við lyfja­fram­leiðend­ur.

Í samtali við mbl.is á þriðjudag sagði Gunnar Bragi mikilvægt að Íslendingar væru upplýstir um það hvernig stjórnvöld hafa samið fyrir þeirra hönd.

Íslensk stjórnvöld hafa gert samninga við fjögur lyfjafyrirtæki um bóluefni, Pfizer/BioNTech, Moderna, AstraZeneca og Janssen - Johnson & Johnson. Að auki hafa þrjú önnur lyfjafyrirtæki gert samninga við Evrópusambandið um bóluefni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert