Nýr göngu- og hjólastígur og tröppustígur sem liggja á milli Bryggjuhverfis og Ártúnshöfða voru opnaðir í gær. Í tilefni af því héldu íbúar í Bryggjuhverfi litla athöfn, en mikil ánægja er með ráðstöfunina meðal íbúanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnaði stígana formlega en íbúar á svæðinu hafa lengi hvatt borgaryfirvöld til að koma á tengingu við Ártúnshöfða. Á opnunarathöfninni hélt Bjarni Þór Þórólfsson, formaður Bryggjuráðs, ávarp. Sagðist hann þakklátur fyrir nýju stígana.
Framkvæmdir við stígana hafa staðið yfir í nokkurn tíma en nú eru þeir tilbúnir. Um er að ræða þriggja metra breiðan og 300 metra langan og upplýstan malbikaðan göngu- og hjólastíg. Hækkunin er um 27 metrar, og er meðalhallinn um 10%, sem er mjög viðráðanlegt. Einnig er hægt að fara um styttri tveggja metra breiðan tröppustíg með handriði.
Næstkomandi sumar stendur til að göngustígurinn verði framlengdur meðfram Svarthöfða að Stórhöfða. Stígurinn mun m.a. mynda góða göngu- og hjólatengingu við Borgarlínuna sem mun ganga í gegnum Ártúnshöfða. Lítilsháttar frágangur er eftir við stígana, t.d. sáning grass í moldarflög.