Grænlensk stjórnvöld hafa tekið vel í Grænlandsskýrslu utanríkisráðherra og þær tillögur, sem þar koma fram um aukin samskipti landanna.
„Ég kynnti skýrsluna í fyrradag fyrir Steen Lynge, utanríkisráðherra Grænlands. Viðbrögð hans voru einstaklega jákvæð og hann lagði það til, sem ég samþykkti fúslega, að við myndum kynna þetta sameiginlega í Hringborði norðursins (Arctic Circle) í haust,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, í Morgunblaðinu í dag. Sömuleiðis hefðu þeir verið ásáttir um að gera rammasamning sem fyrst, sem yrði umgjörð um framkvæmdina.
Guðlaugur Þór kynnti Grænlandsskýrsluna opinberlega á blaðamannafundi í gær, en hún var unnin af nefnd undir forystu Össurar Skarphéðinssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra.
„Ég finn aldrei neitt nema algeran samhljóm milli Íslendinga og Grænlendinga um að efla og styrkja samskiptin, en það hefur vantað fastmótaðan grunn til að byggja á og vinna skipulega eftir,“ segir Guðlaugur Þór. „Þess vegna fól ég Össuri þetta verkefni og treysti engum manni betur til þess. Það sjá enda allir sem lesa skýrsluna hvað hún er vönduð og yfirgripsmikil.“