Handtekin grunuð um íkveikju á Ólafsfirði

Rannsókn málsins er á frumstigi.
Rannsókn málsins er á frumstigi. mbl.is/​Hari

Kona á fertugsaldri hefur verið handtekin vegna gruns um íkveikju að Kirkjuvegi 7 á Ólafsfirði aðfaranótt 18. janúar síðastliðinn. Töf hefur verið á skýrslutöku í málinu þar sem lögregla hefur ekki komist inn á Ólafsfjörð vegna ófærðar. Rannsóknarmenn frá tæknideild lögreglu fóru á svæðið til að rannsaka upptök eldsins.

Bergur Jónsson, aðstoðar yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Akureyri, segir að miklar reykskemmdir séu á húsinu en greiðlega gekk að slökkva eldinn. Húsið er á tveimur hæðum og kom eldurinn upp á neðri hæð hússins. 

„Ein kona var handtekin um nóttina grunuð um að hafa kveikt í,“ segir Bergur. 

Hann segir að íbúi á efri hæð hafi verið vakandi þegar eldurinn kom upp. „Staðan á rannsókninni er á frumstigi. Við fengum tæknideild Lrh til að framkvæmda vettvangsrannsókn daginn eftir og við bíðum niðurstöðu þeirrar skýrslu. En það er rökstuddur grunur um að þarna hafi verið kveikt í. Ekki hefur verið hægt að taka skýrslur af vitnum vegna snjóflóðahættu og lokun á Ólafsfjarðarmúlanum,“ segir Bergur. 

Konan sem var handtekin var flutt til Akureyrar. Tvívegis hefur verið reynt að yfirheyra hana en það ekki gengið vegna ástands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert