„Það furðulega er að mér finnst þær svolítið líkar gömlu höndunum mínum,“ segir Guðmundur Felix Grétarsson, sem hlakkar til þess að fá aukið sjálfstæði með auknum mætti í handleggjum sem græddir voru á hann í síðustu viku. Hann segist ætla að sjá vel um handleggina.
Guðmundur ræddi við blaðamenn í gegnum Zoom-fjarfundabúnað á þriðja tímanum í dag.
Þar sagði hann að aðgerðin hafi gengið virkilega vel og að læknarnir sem framkvæmdu hana hafi aldrei verið jafn ánægðir með niðurstöðu aðgerðar. Stóri áhættuþátturinn í aðgerð sem þessari, sem hafði aldrei verið framkvæmd áður, er hversu lengi útlimirnir eru án blóðflæðis en eftir sex tíma án þess deyja þeir einfaldlega.
Útlimir Guðmundar voru bara án blóðflæðis í einn og hálfan tíma og þakkar hann mikilli æfingu læknanna fyrir það. Hann hafði þá beðið eftir handleggjaágræðslu í tæpan áratug en handleggina missti hann fyrir rétt rúmum 23 árum.
„Það er margt gott við það að þetta gekk ekki strax því [læknarnir] voru svo vel undirbúnir,“ segir Guðmundur.
Aðgerðin tók 15 klukkustundir í það heila. Þegar Guðmundur vaknaði eftir aðgerðina var honum ekki skemmt. Handleggirnir voru eins og „tveir trukkar“ á öxlunum á honum og það eina sem komst að í huga Guðmundar fyrsta sólarhringinn var: „Hvers konar fáviti fer í svona viljandi?“
Guðmundur losnaði af gjörgæslu í gær og segir hann að mikill sársauki hafi fylgt í kjölfar aðgerðarinnar. Hann hafi verið í sömu stellingu síðan hann vaknaði og haft lítið við að vera.
„Franska sjónvarpið er hundleiðinlegt,“ segir Guðmundur sem hefur fengið að hitta eiginkonu sína en enga aðra ástvini vegna Covid-19.
Nú er hann þó orðinn mun hressari með ákvörðunina um aðgerðina en hann var áður.
„Þetta er vel þess virði. Nú er mér farið að líða mjög vel,“ segir Guðmundur en verkirnir hafa minnkað umtalsvert. Hann segist hlakka til þess að geta skynjað heiminn með höndum sínum og faðmað ástvini sína.
„Ég held að enginn geri sér grein fyrir því hvað við skynjum mikið með höndunum.“
Guðmundur segir að líklega geri fólk sér ekki grein fyrir mikilvægi handanna nema það missi þær. Mannleg snerting og í raun líka það að geta snert hvað sem er sé ofboðslega mikilvæg.
„Það er eins og ég sé búinn að vera á zoom-fundi síðan 98,“ segir Guðmundur kíminn enda hefur húmorinn ekki yfirgefið hann þrátt fyrir langa bið og fjölda aðgerða.
Enn er óvíst hversu stóran hluta af handleggjunum Guðmundur mun geta notað. Mögulega þarf að taka hluta af þeim aftur af.
„Það sem við lítum á sem árangur er að ég geti hreyft olnbogann. Allt meira en það er það bónus,“ segir Guðmundur.
Nú tekur við þriggja ára endurhæfing sem verður fullt starf fyrir Guðmund. Taugar hans vaxa út í hendurnar um millimetra daglega. Spurður hvort hann finni nú þegar fyrir handleggjunum segist Guðmundur ekki alveg vita það.
Síðan hann missti handleggina hefur hann fundið fyrir draugaverkjum, eins og handleggirnir séu enn á sínum stað. Slíkir verkir hafa magnast síðan hann fór í handleggjaágræðsluna. Þannig fann hann sterkt fyrir fingrunum tveimur til þremur dögum eftir aðgerðina. Stundum finnur hann svakalega stingi, „eins og þegar tannlæknir borar í taug.“
Guðmundur segist lítið vita um þann sem áður átti hendurnar nema það að hann var franskur og 35 ára gamall. Gjafinn gaf öll sín líffæri til annarra við andlátið svo líf margra hafa breyst vegna hans.
„Ég ætla að hugsa vel um þessar hendur,“ segir Guðmundur sem er nú með franskar hendur og danska lifur þar sem hans eigi lifur skemmdist í slysinu fyrir 23 árum.
Það er ekki útlit fyrir að Guðmundur flytji heim til Íslands á næstunni. Ef eitthvað kemur upp á segir hann að betra sé að hann sé í Lyon þar sem mikil sérfræðiþekking sé til staðar.
Guðmundur lærði markþjálfun nýverið og sér fyrir sér að starfa við það í framtíðinni. Hann segist hafa lært mikið af því að vera án handleggja öll þessi ár, það hafi til að mynda kennt honum mikla auðmýkt og að meta litlu hlutina í lífinu.
Fréttin hefur verið uppfærð með frekari upplýsingum úr viðtalinu