Héraðsdómur Reykjavíkur mun taka fyrir að nýju frávísunarkröfu Jóns Baldvins Hannibalssonar, að því er Landsréttur úrskurðaði í gær. Úrskurður héraðsdóms var dæmdur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og úrskurðar á ný.
Jón Baldvin var kærður af ákæruvaldinu fyrir kynferðislega áreitni gegn Carmen Jóhannsdóttur en héraðsdómur hafði áður fallist á frávísunarkröfu Jóns Baldvins þar sem brotið átti sér stað utan íslenskrar lögsögu.
Lengri tími en fjórar vikur liðu frá því að málið var tekið til úrskurðar þar til hann var kveðinn upp. Með vísan til 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 bar því að flytja málið á ný, nema dómari og aðilar teldu það óþarft, segir í niðurstöðu Landsréttar.
Í 2. mgr. 181. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um að úrskurð skuli kveða upp þegar í stað í þinghaldi ef unnt er en að öðrum kosti svo fljótt sem verða má. Munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu Jóns Baldvins fór fram 23. nóvember 2020 og var málið tekið fyrir þann dag og úrskurður kveðinn upp 7. janúar.
„Málið var ekki flutt að nýju og verður hvorki ráðið að aðilum hafi verið gefinn kostur á því né að þeir hafi lýst því yfir að þess gerðist ekki þörf og dómari væri því sammála. Samkvæmt framangreindu verður að ómerkja hinn kærða úrskurð og vísa málinu heim í hér að til munnlegs málflutnings og uppkvaðningar úrskurðar að nýju,“ segir í niðurlagi úrskurðarins.