„Þetta er auðvitað óásættanleg staða í nútímasamfélagi,“ segir Elías Pétursson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, í samtali við mbl.is. Íbúar Fjallabyggðar, í Siglufirði og á Ólafsfirði, hafa verið innilokaðir nánast alla vikunni vegna vegalokana og snjóflóðahættu.
Hægt var að opna Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarveg í nokkrar klukkustundir í gær áður en aftur þurfti að loka þeim vegna veðurs.
Útlit er fyrir áframhaldandi innilokun um helgina en gul veðurviðvörun er í gildi á Tröllaskaga og þar snjóar áfram en tvö snjóflóð, á Ólafsfjarðarvegi á mánudag og skíðasvæðinu á Siglufirði á miðvikudag, hafa fallið. Auk þess þurfti að rýma níu hús á Siglufirði vegna snjóflóðahættu.
Sé farið vestur frá Siglufirði er ekið um Strákagöng, opnuð 1967, en í áttina að Akureyri frá Ólafsfirði er ekið um Múlagöng en þau opnuðu 1991.
Elías segir bæði göngin barn síns tíma og gera þurfi betur til að tryggja ásættanlegar samgöngur.
„Þegar komið er út úr Múlagöngum í átt til Akureyrar er komið á snjóflóðahættusvæði og mikið snjóþyngslasvæði,“ segir Elías. Staðan sé litlu skárri vestanmegin við Strákagöng:
„Þar hefur vegurinn sigið mjög mikið og óttast menn hreinlega að hann fari í sjóinn,“ segir Elías. Þar er mikil hætta á jarðsigi, skriðuföllum, grjóthruni og snjófljóðum, auk þess sem vegurinn er oft ófær.
Bæjarstjórinn segir lausnina við þessu betri jarðgöng í báðar áttir en þau sé ekki á teikniborðinu og það sé miður. Að hans mati sé algjört lágmark að tryggja góðar og öruggar samgöngur nú þegar nánast allir flutningar fari landleiðir en samgöngur hafi ekki verið öruggar í Fjallabyggð.