Í tilefni af degi vináttu Frakklands og Þýskalands komu sendiherrar landanna í Reykjavík saman og buðu blaðamönnum í morgunverð til að ræða samskipti grannríkjanna. Ræddu Dietrich Becker, sendiherra Þýskalands, og Graham Paul, sendiherra Frakklands, meðal annars þá nánu samvinnu og vináttu sem myndast hefði milli sendiráða landanna í Reykjavík með tilkomu samningsins.
Samninginn undirrituðu Charles de Gaulle, þáverandi forseti Frakklands, og Konrad Adenauer, sem þá var kanslari Þýskalands, í Élysée-höll í því skyni að efla tengslin milli þessara þjóða og styrkja vináttuböndin eftir hildarleiki heimsstyrjaldanna á fyrri hluta 20. aldar þannig að átök milli þessara þjóða yrðu úr sögunni.
Sendiherrarnir buðu til morgunverðar í franska sendiherrabústaðnum við Skálholtsstíg til að ræða um samvinnu Frakklands og Þýskalands og stöðu Íslands.