Veðurstofa Íslands hefur lýst yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum. Nokkur minni snjóflóð hafa fallið, einkum í Skutulsfirði en einnig í Súgandafirði, þótt ekkert þeirra hafi verið ofan byggðar og ekkert náð niður á veg.
Hins vegar er hætta á að snjóflóð geti fallið á vegi, svo sem í Súðavíkurhlíð, Eyrarhlíð og á Flateyrarveg svo fátt eitt sé nefnt. Er því fólk hvatt til þess að vera ekki á ferðinni á milli byggðakjarna að nauðsynjalausu.
Lögreglan telur ekki að hætta sé á ofanflóðum ofan byggðar á Vestfjörðum.
Óvissustig vegna snjóflóðahættu felur í sér aukinn viðbúnað snjóflóðavaktar Veðurstofunnar og snjóathugunarmanna ásamt samráði við lögreglu og almannavarnir í héraði vegna snjóflóðahættu sem upp kann að koma í byggð.
Skíðasvæðinu upp á Seljalandsdal var lokað fyrir skömmu og veginum þangað upp eftir þar sem snjóflóð hafa verið að falla niður hlíðina ofan þess vegar. Athugað verður með opnun vegarins í fyrramálið, að því er segir í Facebook-færslu lögreglunnar á Vestfjörðum.
NV Vestfirðir - óvissustig vegna snjóflóðahættu. Veðurstofa Íslands hefur lýst yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á...
Posted by Lögreglan á Vestfjörðum on Friday, 22 January 2021