Landsréttur staðfesti í dag hálfs árs skilorðsbundinn dóm yfir karlmanni fyrir að aka á nágranna sinn í desember árið 2017. Mennirnir eru nágrannar og hafa staðið í deilum um árabil.
Í dómi Héraðsdóms Suðurlands frá því í júlí árið 2019 kom fram að maðurinn hafi verið sakaður um sérstaklega hættulega líkamsárás fyrir að hafa ekið bifreið aftan á nágranna sinn þar sem hann stóð í heimreiðinni. Maðurinn féll við það aftur fyrir sig og hafnaði á vélarhlíf bifreiðarinnar.
Maðurinn sem ekið var á hörfaði í framhaldinu undan bílnum en endaði aftur uppi á bílnum þar sem hinn ákærði ók með nágranna sinn á húddinu á nærliggjandi tún.
Ferðinni lauk með því að bílstjórinn tók skarpa beygju með þeim afleiðingum að maðurinn ofan á húddi bílsins féll á jörðina og varð undir vinstra afturhjóli bifreiðirnar. Hlaut hann við það ýmiss konar sár.
Ákærði neitaði sök og sagði kröfuna byggða á því að hann hefði verið að koma í veg fyrir árás af hendi nágrannans. Hann hefði aldrei ætlað að keyra aftan á nágranna sinn á heimreiðinni en hálka hafi verið á veginum og bifreiðin runnið á manninn.
Að mati héraðsdóms var háttsemi mannsins ekki nauðsynleg til að verjast árás, sem hann sagðist hafa verið að gera. Hann er því dæmdur í sex mánaða skilrorðsbundið fangelsi og er gert að greiða 700.000 krónur í skaðabætur.
Landsréttur staðfesti sem fyrr segir dóm héraðsdóms, en auk þess var hinum sakfellda gert að greiða 1,2 milljónir í áfrýjunarkostnað.