Undanþáguávísunum lyfja sem innihalda ivermectin hefur fjölgað töluvert í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Sjö undanþáguávísanir hafa borist vegna Covid-19 en ivermectin hefur hvorki verið samþykkt sem meðferð né forvörn við sjúkdómnum.
Í þremur tilvikum hafa undanþáguávísanir með Covid-19 sem ábendingu verið samþykktar en í tveimur tilvikum er um að ræða lækna sem ávísuðu lyfinu á sjálfa sig.
Þetta kemur fram í svari Lyfjastofnunar við skriflegri fyrirspurn mbl.is um lyfið, en þar segir einnig að stofnuninni hafi borist tvöfalt fleiri undanþáguávísanir vegna ivermectin árið 2020 en árið þar á undan.
Eins og fram kemur í svari Jóns Magnús Jóhannessonar deildarlæknis á Landspítala við spurningu á Vísindavefnum hefur notkun sníkjudýralyfsins ivermectin gegn Covid-19 aukist verulega á síðustu mánuðum, gjarnan án þess að lyfið hafi verið samþykkt til slíkrar notkunar. Lyfið hefur fengið aukna athygli nýlega sem möguleg meðferð gegn Covid-19. Ekki er hægt að staðfesta gagnsemi lyfsins með vissu fyrr en stærri og ítarlegri rannsóknir á því hafa farið fram.
Lyfjastofnun er ekki kunnugt um innflutning einstaklinga á lyfinu til eigin nota.
Árið 2019 bárust Lyfjastofnun 15 undanþáguávísanir lyfja sem innihalda ivermectin fyrir menn, þær voru allar við þekktri ábendingu og voru því allar samþykktar.
Árið 2020 bárust tvöfalt fleiri undanþáguávísanir lyfja sem innihalda ivermectin fyrir menn en árið þar á undan. Undanþáguávísanirnar voru alls 30, 29 við þekktri ábendingu og ein við Covid-19 þar sem læknir ávísar á sjálfan sig og voru þær allar samþykktar.
Þó einungis tæpur mánuður sé liðinn af árinu 2021 hafa nú þegar borist 7 undanþáguávísanir lyfja sem innihalda ivermectin fyrir menn, ein við þekktri ábendingu og var hún samþykkt. Sex undanþáguávísanir höfðu COVID-19 sem ábendingu og voru tvær samþykktar, í öðru tilvikinu var um að ræða lækni sem ávísaði á sjálfan sig, og fjórum hafnað.
Ivermectin er flókið sýkingarlyf með margþætta gagnsemi. Það er notað um allan heim gegn margvíslegum ormasýkingum en einnig gegn öðrum sníkjudýrum.
Eins og áður segir hefur ivermectin hvorki verið samþykkt sem meðferð eða forvörn við Covid-19.
„Ekki ætti að taka lyf, hvorki þetta né önnur, sem forvörn eða til meðferðar við sjúkdómnum, nema læknir hafi ávísað því og uppruni þess sé í samræmi við lög og reglur,“ segir á vefsíðu Lyfjastofnunar. Lyfinu geta fylgt ýmsar aukaverkanir.
Í fyrrnefndu svari Jóns Magnúsar segir hann að talsverð óvissa sé til staðar í umræðunni um ivermectin og Covid-19.
Að lokum tekur Jón Magnús fram að áfram sé talsverð óvissa til staðar í umræðunni um ivermectin og Covid-19.
„Sár skortur er á árangursríkri, öruggri meðferð gegn COVID-19 – ef ivermectin uppfyllti þau skilyrði væri það ómetanleg viðbót í viðbrögðum okkar við þessum heimsfaraldri samhliða bólusetningum og samfélagslegum inngripum. Því miður skortir okkur gögnin til að segja til um slíkt en vonandi verður ráðin bót á því á næstu mánuðum.“
Fréttin var uppfærð 25. janúar með nýjum upplýsingum frá Lyfjastofnun