Varðskipið Þór lét úr höfn í Reykjavík klukkan 21 í kvöld og heldur vestur á firði, en áhöfn skipsins hefur verið kölluð út vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum.
Greint var frá því fyrr í dag á mbl.is að Þór yrði sendur af stað í kvöld.
Verður skipið til taks á svæðinu í samvinnu við lögregluna á Vestfjörðum og almannavarnir meðan þurfa þykir, að því er segir nú í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
Gert er ráð fyrir að skipið verði komið til Önundarfjarðar um hádegisbil á morgun.
Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, sagði í samtali við mbl.is í dag að skip Landhelgisgæslunnar geti nýst við ýmiss konar verkefni. Um borð í skipunum sé áhöfn sem er sérþjálfuð til ýmissa björgunarstarfa, auk þess sem hægt sé að nýta skipin til að flytja fólk sjóleiðina ef landleið reynist ófær.
Varðskipið Týr hefur undanfarna daga verið til taks á Norðurlandi, einnig vegna snjóflóðahættu.