„Við erum með nýlegt fjós. Framleiðslan jókst hratt eftir að við fluttum í það. Þegar aðstaðan batnar verða kýrnar heilbrigðari,“ segir Guðrún Marinósdóttir, bóndi á Búrfelli í Svarfaðardal. Kúabú þeirra hjóna, hennar og Gunnars Þórs Þórissonar, var með mestu meðalafurðir allra kúabúa landsins á síðasta ári.
Afurðir búsins voru 8.579 kg eftir hverja árskú á árinu 2020. Hefur búið tekið mikið stökk í framleiðslu síðustu árin, með tilkomu nýs fjóss með mjaltaþjóni. Fjósið var tekið í notkun í mars 2018, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Til samanburðar má geta þess að meðalafurðir búsins voru 7.977 kg á árinu 2019 og var búið þá í 17. sæti yfir afurðahæstu búin og á árinu 2018 var framleiðslan 7.492 kg og var búið þá í 41. sæti. Ef litið er til ársins áður en fjósið var tekið í notkun sést að meðalafurðir á Búrfelli voru 6.927 kg mjólkur og búið í 102. sæti yfir kúabúin. Stökkið er því mikið enda hafa meðalafurðir á hverja árskú aukist um 1.650 kg á þessum tíma.
„Við erum kvótalítil og maður getur því leyft sér að taka til í fjósi. Þá fara þeir gripir sem skila minnstu. Það fóru nokkrir þannig í sumar,“ segir Guðrún einnig spurð um frekari skýringar á góðum árangri í framleiðslunni. Kýrnar eru þá sendar í sláturhús fyrr en annars hefði orðið.