Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur að bjóða út framkvæmdir vegna endurnýjunar á lýsingu og gólfefni í sal Laugardalshallarinnar.
Kostnaðaráætlun vegna framkvæmdanna er 230 milljónir króna. Laugardalshöllin var vígð 6. desember 1965, eða fyrir rúmlega 55 árum.
Höllin hefur verið lokuð síðan í nóvember síðastliðnum í kjölfar heitavatnsleka sem eyðilagði gólf hússins. Búið er að fjarlægja ónýtt parket og undirlag þess, að því er fram kemur í umfjöllun um þessar framkvæmdir í Morgunblaðinu í dag.
Fram kemur í greinargerð umhverfis- og skipulagssviðs að framkvæmdir felast í fyrsta lagi í endurnýjun lýsingar fyrir salinn með tilheyrandi búnaði, stýringum og neyðarlýsingu. Núverandi lýsing uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til keppnislýsingar og notkunar hússins sem fjölnota húss. Áætlaður kostnaður við endurnýjun lýsingar er 90 milljónir. Skv. fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir endurnýjun lýsingar á árinu 2021.