Þór, varðskip Landhelgisgæslunnar, mun halda úr höfn í Reykjavík í kvöld og er stefnan sett vestur á Flateyri. Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is. Skipið verður komið vestur í fyrramálið.
Hættustigi hefur verið lýst yfir vegna snjóflóða á Flateyri og Ísafirði, og hafa þrjú hús á Flateyri verið rýmd vegna snjóflóðahættu.
Þá er hættustig einnig í gildi á Siglufirði, þar sem hluti bæjarins hefur verið rýmdur. Annað skip Landhelgisgæslunnar, Týr, er til taks í Eyjafirði en það hélt norður á miðvikudag í sömu erindagjörðum.
Ásgeir segir að skip Landhelgisgæslunnar geti nýst við ýmiss konar verkefni. Um borð í skipunum sé áhöfn sem er sérþjálfuð til ýmissa björgunarstarfa, auk þess sem hægt sé að nýta skipin til að flytja fólk sjóleiðina ef landleið reynist ófær.