Forstjóri RARIK og yfirmenn fyrirtækisins á Suðurlandi tóku í gær fyrstu skóflustungurnar að byggingu nýrrar svæðisskrifstofu RARIK á Suðurlandi í Larsenstræti 4, sem er austast í Selfossbæ.
Miðað er við að framkvæmdir verði boðnar út á vormánuðum og húsið verði fullbúið á næsta ári.
Um er að ræða tvær byggingar, samtals 1.560 fermetrar að stærð. Annars vegar lager, bílgeymslu, skrifstofuhluta og starfsmannaaðstöðu og hins vegar talsvert minni byggingu, aðstöðuhús þar sem verður geymsla á búnaði útiflokka, varaaflstöð og fleira. Í Larsenstræti verður aðstaða fyrir að jafnaði 24 starfsmenn en gert er ráð fyrir að þar geti allt að 35 manns af skrifstofu og í útiflokkum starfað í einu.