Þrjú íbúðarhús á Flateyri hafa verið rýmd vegna snjóflóðahættu. Þetta eru Ólafstún 9 og 12 og Goðatún 14. Þá er dvöl á bensínstöðinni í bænum bönnuð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum. Ákvörðunin er tekin eftir að Veðurstofa Íslands lýsti yfir hættustigi á svæðinu.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að rýmingin sé „algjör öryggisráðstöfun“ og að óþarft sé að óttast sé leiðbeiningum fylgt.
Flateyrarvegur er enn lokaður vegna snjóflóðahættu og sama gildir um veginn milli Súðavíkur og Ísafjarðar, sem og svokallaðan Skíðaveg sem liggur frá byggð í Ísafirði upp á gönguskíðasvæði á Seljalandsdal.
Enn er rýming í gildi á Siglufirði vegna snjóflóðahættu.