Fjölmargir fjallvegir eru lokaðir vegna veðurs á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Öxnadalsheiði var lokað eftir að tvö snjóflóð féllu á veginn.
Meðal vega sem var lokað í nótt eru Holtavörðuheiði, Þverárfjall, Siglufjarðarvegur, Ólafsfjarðarmúli, Víkurskarð, Öxnadalsheiði, Súðavíkurhlíð, Dynjandisheiði, Þröskuldar, Mývatns- og Möðrudalsöræfi, Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði og Fagridalur.
Á vefsíðu Vegagerðarinnar segir að víða sé stórhríð og alls ekkert ferðaveður. Víða eru vegir lokaðir vegna hættu á snjóflóðum.
Í gær var greint frá því að björgunarsveitir hefðu verið kallaðar út vegna snjóflóðs á Öxnadalsheiði á níunda tímanum. Sat fólk fast í bílum sínum, en á tólfta tímanum, þegar björgunarsveitir voru að ljúka störfum, féll annað flóð. Samkvæmt RÚV voru þá aðeins þrír bílar enn fastir og voru allar sveitir kallaðar hið snarasta niður af heiðinni.