Unnendur hins rammíslenska þorramatar geta nú tekið gleði sína. Með bóndadegi í gær gekk þorrinn í garð en kórónuveirufaraldurinn kemur þó í veg fyrir fjöldasamkomur á þorrablótum.
Mikil eftirspurn er hins vegar eftir þorrabökkum í heimahúsum og hefur Múlakaffi haft í nógu að snúast að koma þorramatnum út, súrum sem ósúrum. Einnig er hlaðborð á veitingastaðnum opið frá morgni til kvölds, eða frá klukkan 9:30 til 20, þar sem tuttugu manns geta verið í hverju hólfi.
Hraustlega var tekið á því í hádeginu í gær og hægt að velja úr miklu úrvali á hlaðborðinu, m.a. var nóg af saltkjöti, sviðasultu, kartöflustöppu og uppstúfi.