Annað og stærra flóð í Öxnadal

Snjóflóð féll á Öxna­dals­heiði, rétt áður en komið er upp …
Snjóflóð féll á Öxna­dals­heiði, rétt áður en komið er upp á topp heiðar­inn­ar sunn­an­frá, við Grjótaá. Kort/map.is

Snjóflóð féll á Öxnadalsheiði, rétt áður en komið er upp á topp heiðar­inn­ar sunnanfrá, við Grjótaá. Flóðið er sagt stórt og féll á sama stað og þrjú flóð féllu í fyrradag. Ekki er talið að nein hætta hafi verið á ferðum enda var veginum um Öxnadalsheiði lokað eftir að fyrri þrjú flóðin féllu. Þetta staðfestir ofanflóðasérfræðingur Veðurstofunnar við mbl.is.

Þá féll annað flóð í nótt á veginn um Eyrarhlíð, milli Ísafjarðar og Hnífsdals. Vegurinn var opinn þegar flóðið féll en óvissustig vegna snjóflóðahættu var í gildi. Veginum hefur nú verið lokað.

Enn er óvissustig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi og norðanverðum Vestfjörðum. Í gær var greint frá því að nokkur íbúðarhús hefðu verið rýmd en þau stóðu á þeim stað er snjóflóð féll í janúar á síðasta ári. Einnig kom til rýmingar á Ísafirði þar sem reitur 9 var rýmdur, en innan hans fellur einungis atvinnuhúsnæði.

Á vef Veðurstofunnar segir að dregið hafi úr veðrinu frá því í gærkvöldi á þeim svæðum sem hér ræðir og að minni úrkoma mælist. Þó gengur enn á með dimmum éljum og skafrenningi. Á Austfjörðum hefur óvissustig ekki verið tilkynnt en þar hefur verið talsverð snjókoma og norðanvindur. Vindurinn hefur staðið að norðan á Austurlandi í um viku en spár gera ráð fyrir að nú fari að lægja. Áfram verður fylgst með aðstæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert