Búið að opna fyrir umferð yfir Holtavörðuheiði

Holtavörðuheiði
Holtavörðuheiði mbl.is/Gúna

Vegagerðin hefur opnað Holtavörðuheiði, en veginum var lokað í gær vegna ófærðar og veðurs. Hált er á veginum. Einnig er Brattabrekka opin fyrir umferð, en búast má við krapa eða snjóþekju þar yfir.

Hálka eða þæfingsfærð er í Húnavatnssýslum og lítið skyggni. Í Skagafirði er ýmist þungfært eða ófært og í Eyjafirði er þæfingur eða þungfært, blint og frekar erfið akstursskilyrði. Opið yfir Vatnsskarð, þar sem búast má við þæfingsfærð, en lokað er yfir Þverárfjall, Öxnadalsheiði, Ólafsfjarðarmúla, Siglufjarðarveg og Ljósavatnsskarð. Er hættustig í gildi vegna snjóflóðahættu á síðastnefndu þremur leiðunum, sem og á Grenivíkurvegi.

Snjóþekja, þæfingur eða hálka er á vegum á Norðausturlandi og skafrenningur eða stórhríð. Eru fjallvegir þar annaðhvort lokaðir eða ófærir.  

Á Austurlandi eru Fagridalur og Fjarðarheiði lokuð. Víðast hvar hálka eða snjóþekja á vegum, éljagangur og skafrenningur.

Á Vestfjörðum eru margir fjallvegir ófærir eða lokaðir en víða þæfingur á láglendi. Aka þarf um vetrarveg við Geiradalsá á Vestfjarðavegi. Lokað er yfir Þröskulda, Klettsháls er ófær, Dynjandisheiði er lokuð, en athugað verður með mokstur eftir hádegi. Þá er Gemlufallsheiði ófær og Flateyrarvegur lokaður og hættustig vegna snjóflóðahættu. Sama á við um Eyrarhlíð og Súðavíkurhlíð, þar sem einnig er snjóflóðahætta, og að lokum er Steingrímsfjarðarheiði ófær.

Greiðfært er með suðurströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert