Flytja þurfti sjúkling frá Þórshöfn til Akureyrar í gær, en vegna mjög slæms veðurs var ómögulegt fyrir sjúkraflugvél að lenda á Þórshöfn og Vopnafirði. Var því nauðsynlegt að fara landleiðina, en til þess voru ræstar út nokkrar björgunarsveitir á Norðausturlandi og snjómokstursmenn til að fylgja sjúkrabíl eftir frá Þórshöfn yfir Hófaskarð og áleiðis til Akureyrar.
Björgunarsveitin Hafliði á Þórshöfn greinir frá því að eftir mikla baráttu hafi tekist að komast yfir Hófaskarðið þar sem sjúkrabíll frá Húsavík og björgunarsveitin Garðar hafi tekið við sjúklingnum og komið honum til Akureyrar.
Veður hefur verið slæmt og ekkert ferðaveður á Norður- og Norðausturlandi í dag og í gær. Voru flestir fjallvegir lokaðir og því talsverð fyrirhöfn að komast þessa leið, líkt og sjá má á myndum og myndskeiðum sem fylgja á facebooksíðu björgunarsveitarinnar.
Í dag kl. 11:36 barst sveitinni boð á hæsta forgangi frá Neyðarlínu um að fylgja sjúkrabíl frá Þórshöfn yfir Hófaskarðið...
Posted by Björgunarsveitin Hafliði on Saturday, January 23, 2021