Fjölnir Sæmundsson, nýkjörinn formaður Landssambands lögreglumanna, segir lögreglumenn eiga erfitt með að svara fyrir sig í málum sem lúta að þeim og er fjallað um í fjölmiðlum.
Ummælin féllu í Silfrinu í dag.
„Umræðan um lögreglu hefur aðeins truflað mig. Mér hefur fundist einhver þurfa að stíga fram og svara fyrir lögreglumenn. Það hefur til dæmis truflað mig mjög mikið þegar talað er um að lögreglumenn séu með fordóma,“ sagði Fjölnir og bætti við að hann gæti ekki talað fyrir einstaklinga.
„En sem stétt þá veit ég hvernig lögreglumenn hugsa. Ég hef stundum sagt að það eru sennilega engir fordómalausari en lögreglumenn því við erum að fást við alls konar fólk. Við erum að fást við gerendur og þolendur og við þurfum að koma eins fram við báða.
Ég hef tekið sem dæmi að ég hef setið í bíl og hádegismat með morðingjum og nauðgurum og barnaperrum og ég þarf að koma fram við þá af sömu virðingu og aðra. Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því hvernig lögreglumenn þurfa að koma eins fram við alla,“ sagði hann.