Tvö kórónuveirusmit greindust innanlands í gær og var annar hinna smituðu í sóttkví við greiningu. Átta smit greindust á landamærunum. Þetta staðfestir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.
Að sögn Víðis eru tölurnar ánægjulegar og til marks um góðan árangur hér innanlands. Hann segir að sem fyrr séu sóttvarnaaðgerðir í stöðugri endurskoðun en á þó ekki von á því að þeim verði breytt á næstunni. Víðir trúir því einnig að nokkuð almenn sátt ríki um þær aðgerðir sem nú eru í gildi.
„Já, þetta er mjög fínt og mjög jákvætt,“ segir Víðir um smittölur gærdagsins.
Á miðvikudag verða tvær vikur síðan slakað var síðast á aðgerðum, en jafnan er talið taka um tvær vikur að sjá árangur af þeim sóttvarnareglum sem taka gildi.
„Við erum alltaf að fara yfir þessi mál og það er alltaf ástæða til að endurmeta það sem er í gildi hverju sinni. Nú er það svo að þessi reglugerð sem núna er gildir til 17. febrúar,“ segir Víðir um hvort slakað verði á sóttvarnaaðgerðum.
Spurður hvort rætt hafi verið hér á landi um að bólusetja íþrótta- og afreksfólk við kórónuveirunni fyrr en aðra segir Víðir að svo sé ekki. Hann segist hafa orðið var við slíka umræðu erlendis en telur ekki skynsamlegt að færa íþrótta- og afreksfólk fram fyrir aðra í forgangsröðun um bóluefni.
„Það hafa verið alls konar umræður um forgangshópa. Við erum að fá svo fáa skammta að þeir sem eru í áhættuhópi verða að vera í forgangi og eru það. Við höfum ekki fengið beiðnir um þetta sem þú ert að lýsa og ég held að íþrótta- og afreksfólk hér á landi vilji heldur ekkert fara að ryðjast fram fyrir eldri og veikari einstaklinga.“
Samtök íslenskra ólympíufara, SÍÓ, hafa sent Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands, ÍSÍ, áskorun um að hafa frumkvæði að því að líklegir þátttakendur á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar, ásamt þjálfurum og fararstjórum, verði bólusettir fyrir kórónuveirunni.
Víðir Reynisson sagði í samtali við mbl.is í gær að hann væri hræddur um að lágar smittölur undanfarinna daga gætu verið „svikalogn“. Æ færri kæmu nú í sýnatöku og þá sagðist hann hafa heyrt af einstaklingum sem færu ekki gætilega, færu jafnvel á mannamót og til vinnu með einkenni í stað þess að fara í sýnatöku og sóttkví.
Spurður út í þetta segist Víðir ekki hafa frekari upplýsingar sem renna stoðum undir þessa kenningu hans.
„Það eru færri að koma í sýnatökur, sérstaklega um helgar eins og verið hefur í gegnum mestallan faraldurinn. Við sjáum hvernig þetta verður á morgun og þá fáum við vonandi skýrari mynd.“