Vandamálið varð að „biluðu“ áhugamáli

Helga Sigrún hefur líka rætt mikið um að fyrirmyndir skorti …
Helga Sigrún hefur líka rætt mikið um að fyrirmyndir skorti fyrir ungar vísindakonur og vekur gjarnan athygli á möguleikum raunvísinda á samfélagsmiðlum. Ljósmynd/Aðsend

Þegar Helga Sigrún Hermannsdóttir, sem útskrifaðist með BS-gráðu í efnaverkfræði í byrjun árs, hafði verið send þrisvar sinnum á sterka lyfjameðferð við húðsjúkdómnum acne án þess að lyfjameðferðin bæri mikinn árangur ákvað hún að segja stopp og taka málin í sínar eigin hendur. Hún komst þá að því að með því að læra á innihaldsefni húðvara gæti hún ráðið mun betur við vandamálið en sterka lyfjameðferðin hafði gert.

Nú gefur Helga Sigrún fjölda fólks með húðvandamál ráð í gegnum samfélagsmiðla og stefnir að því að stofna sitt eigið fyrirtæki í þeim geira. Helga Sigrún vill opna umræðuna, fjarlægja skömmina sem fylgir húðvandamálum og upplýsa fólk um það hvað virkar og hvað gerir það alls ekki. Þá stefnir hún einnig að því að vekja áhuga ungra kvenna á raunvísindum.

„Ég hef fengið mörg hundruð skilaboð og  alveg þurft að skammta hverja ég aðstoða og hverja ekki vegna þess að ég þarf auðvitað að vita mikið og spyrja nánari spurninga,“ segir Helga Sigrún.

Efnaverkfræðin hjálpaði mikið til

Hún hefur ekki rukkað neitt fyrir aðstoðina og ekki tekið við greiðslum frá fyrirtækjum til þess að auglýsa hinar og þessar vörur eins og áhrifavaldar á samfélagsmiðlum gera mjög gjarnan.

„Ég hef bara verið að gera þetta vegna þess að þetta skiptir mig ofboðslega miklu máli. Það hefur líka gefið mér ótrúlega mikið að geta miðlað bæði reynslu og þekkingu út frá vísindum til fólks sem það vill og þarf virkilega á því að halda,“ segir Helga Sigrún.

Hún ákvað í raun óvænt að skrá sig í efnaverkfræði í Háskóla Íslands en segir að eftir á að hyggja hafi það verið besta ákvörðun sem hún hafi tekið. Seinna meir áttaði hún sig nefnilega á því að efnaverkfræðin og reynsla hennar af húðvandamálum spiluðu fullkomlega saman.

Eitt og hálft ár á sterkum lyfjum

11-12 ára fór Helga Sigrún að fá bólur eins og margir aðrir og svo greindist hún með kvensjúkdóminn PCOS þegar hún var 16 ára og fékk þá í raun útskýringu á því hvers vegna hún hefði glímt við bólur svo lengi.

„Það var bara ótrúlega mikill léttir í sjálfu sér að vita að það var eitthvað að, annað að ég væri bara með bólur eða ekki að þrífa húðina mína nægilega vel,“ segir Helga Sigrún.

Þegar hún var 14 ára gömul var hún svo sett á fyrstu Decutan-meðferðina sína. Um er að ræða sterkustu bólumeðferð sem hægt er að fara í. Hún þurrkar upp allar olíur í húðinni og líkamanum, veldur augnþurrki, liðverkjum og bakverkjum. Rúmu ári síðar var Helga Sigrún aftur komin með acne.

Hún var aftur sett á Decutan 16 ára og svo enn á nýjan leik þegar hún var tvítug. Alltaf var um sex mánaða meðferðir að ræða og alltaf fékk hún acne á nýjan leik.

„Ég hef í heildina eytt einu og hálfu ári af ævi minni í að vera á þessari Decutan-meðferð sem er náttúrulega bara klikkað. Það var aldrei skoðað hver væri rót vandans. Þegar ég fór á síðustu Decutan-meðferðina mína sá ég bara að þetta væri ekki að ganga og skildi ekki hvers vegna þau væru að setja mig á svona sterka lyfjameðferð sem hafði ekki sýnt árangur,“ segir Helga Sigrún.

„Með fullri virðingu fyrir húðsjúkdómalæknum sem eru auðvitað hámenntaðir finnst mér þessi færibandavinna allt of algeng. Þú kemur inn með bólur og þá færðu bara Decutan því það virkar í mörgum tilvikum en alls ekki öllum.“

Les tvær til þrjár rannsóknir daglega

Í kjölfarið fór Helga að lesa sér enn meira til um málið en áður og komst að því að efnaverkfræðin hjálpaði skilningi hennar á ýmsum húðvörum verulega mikið. Þegar hún fór að takast á við vandamálin með húðvörum sem innihéldu efni sem höfðu sannað gildi sitt vísindalega fóru bólurnar loks að gefa eftir.

„Ég les svona tvær til þrjár rannsóknir daglega. Þetta er bilað áhugamál hjá mér, ég elska að pæla í snyrtivörum. Ég er með þessa menntun og þetta vandamál. Þetta var skrifað í skýin.“

En umræða Helgu Sigrúnar á samfélagsmiðlum byrjaði ekki strax og í raun ekki fyrr en á síðasta ári. Þá hafði hún tekið eftir því að áhrifavaldar sem ekki glímdu við húðvandamál voru farnir að ráðleggja öðrum að kaupa hitt og þetta til þess að takast á við húðvandamál gegn greiðslu.

„Þetta er fallegt fólk sem maður lítur upp til en síðan er það með ótrúlega góða húð því það fékk hana í vöggugjöf. Maður kaupir bara einhvern veginn allt sem þetta fólk segir. Þegar ég fór að sjá þessar auglýsingar og skoða vörurnar þá sá ég að þær voru ekkert sérstaklega góðar,“ segir Helga Sigrún.

Þá fór hún að ræða málið í svokölluðu story á samfélagsmiðlinum Instagram.

„Ég man þegar ég setti inn fyrsta story-ið mitt þá vildi ég minna fólk með acne að þiggja ekki ráð frá einhverjum sem veit ekki hvað sameind er eða hefur aldrei fengið bólu á ævi sinni og hefur engra hagsmuna að gæta nema eigin,“ segir Helga Sigrún.

Ætlar að hefja eigin rekstur

Viðbrögðin létu ekki á sér standa og fjórum mánuðum síðar hefur fylgjendum hennar fjölgað um 2.000. Á Instagram ræðir hún um húðvörur og virkni þeirra og gefur fólki jafnvel einstaklingsmiðuð ráð þótt hún geti ekki sinnt öllum sem til hennar leita.  

„Eftir að þetta byrjaði og ég fann fyrir því að fólk hefði áhuga á að heyra hvað ég hefði að segja sem manneskja með skilning á efnafræði,“ segir Helga Sigrún.

Henni þykir mikilvægt að taka fram að jafnvel þótt hún viti býsna mikið um húðvandamál og innihald snyrtivara fái hún samt bólur og er dugleg að sýna frá því hvernig húðin hennar lítur út hverju sinni á Instagram.  

 „Mér finnst svo ótrúlega mikilvægt að fólk sjái aðra sem eru eins og þau því maður getur verið svo ótrúlega heilaþveginn af fólki sem fittar inn í allt sem mann langar til að vera. Maður er óvanur því að sjá fólk sem lítur út eins og maður sjálfur. Því þarf ekki að fylgja skömm að vera með bólur,“ segir Helga Sigrún sem vinnur nú að því að stofna sitt eigið fyrirtæki.

„Ég og vinur minn, sem er sjálfur með alvarlegt exem, erum að vinna að lausn sem einfaldar ferlið fyrir fólk að hugsa um húðina á sér. Hún er byggð á vísindalegum bakgrunni og er ekki lituð af markaðsherferðum,“ segir Helga Sigrún sem vill ekki gefa of mikið upp um plön þeirra.

Snýst um að líða vel í eigin skinni

Helga tekur fram að umræða hennar á samfélagsmiðlum snúist um miklu meira en útlit og heilbrigð húð geti alveg lent í því að fá bólur.

„Þetta snýst líka um það að líða vel í húðinni, að líða vel í eigin skinni og vita að það er ótrúlega eðlilegt að fá bólur. Þetta er raunverulegt vandamál fyrir marga. Þetta er líka oft ótrúlega sárt. Það að finna lausn á þessu snýst ekkert alltaf um útlit. Þetta er heilsufarslegt vandamál sem hefur áhrif á mann andlega.“

Helga Sigrún hefur líka rætt mikið um að fyrirmyndir skorti fyrir ungar vísindakonur. Hún var sjálf svolítið ein á báti í náminu sínu í HÍ og finnst samfélagið í raun leggja of mikla áherslu á útlit kvenna.

„Það snýst allt um útlitið manns, að vera sætur. Samfélagsmiðlar snúast um að vera einmitt það. Mér finnst vanta svo mikinn fókus á það úr hverju við erum gerðar. Ég hef eiginlega engan áhuga á því að sýna að ég sé sæt. Mig langar að sýna frá náminu mínu. Sýna hvað er hægt að gera með náminu mínu, að þú þarft ekki að vera klárust í heimi, bara vinna þér inn fyrir gráðunni þinni. Maður þarf bara að demba sér í hlutina.“

Vekur athygli á möguleikum raunvísinda

Stór hluti fylgjenda Helgu eru ungar stelpur og leggur hún áherslu á að vekja athygli þeirra á möguleikum raunvísinda, að þau geti vel tengst einhverju sem þær hafi áhuga á.

 „Mér finnst bara mikilvægt að fólk opni augun fyrir því að konur eru alls konar og við gerum mismunandi hluti og það er alveg hægt að vera sæt og klár á sama tíma. Ég veit að það eru margar ungar stelpur að fylgjast með mér og mér finnst mikilvægt að þær viti að það snýst ekkert allt um útlitið, það skiptir mestu máli hvernig persóna þú ert, og það sem þú ákveður að gera við framtíðina þína þarf ekki að snúast um það hvort þú sért sæt eða passir inn í einhverja fegurðarstaðla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert