Annað stórt flóð féll í nágrenni Eskifjarðar síðdegis í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er líklegast um stærra flóð að ræða en það sem féll úr Harðskafa fyrr í morgun.
Flóðið, sem féll um klukkan hálfþrjú í dag, féll úr Hólmgerðarfjalli, en það er austan megin við bæinn.
Eins og myndin sem fylgir fréttinni sýnir er brotstálið bæði greinilegt og umtalsvert langt. Var flóðið í hlíðunum fyrir ofan veginn upp í Oddskarð. Óliver Hilmarsson, snjóflóðasérfræðingur á Veðurstofunni, segir að flóðið hafi fallið fljótlega eftir að sólin fór að skína á fjallið sem sýni hversu veikt lagið er undir. Ítrekar hann að mjög varasamt er að vera á ferðalagi til fjalla við þessar aðstæður.
Áður hafði verið greint frá að fyrra flóðið teldist 4,5 að stærð, en nánari athugun hefur leitt í ljós að það flokkast sem 3,5 að stærð.