Berjarunni samrýmist stefnu borgaryfirvalda

Um helmingur af 10 fermetra bletti er ætlaður undir gras …
Um helmingur af 10 fermetra bletti er ætlaður undir gras og berjarunna.

Pawel Bartozek, borgarfulltrúi Viðreisnar og staðgengill formanns skipulags og samgönguráðs, segir að berjarunni á séreignasvæði í nýrri Vogabyggð sé hluti af stefnu borgarinnar um að fjölga grænum svæðum í borginni. Eigandi segir engan sjá væntanlegan runna nema eigendur vegna girðingar.

„Þarna er verið að svara þeirri gagnrýni sem hefur verið á nýbyggingar á þéttingssvæðum að þar hafi verið um að ræða hreina og kalda steinsteypu. Nú er því ákveðin tilhneiging hjá skipulagsyfirvöldum að reyna að gera mannvænna og grænna umhverfi,“ segir Pawel sem viðurkennir þó að hann þekki ekki staðarhætti nákvæmlega í þessu tiltekna tilviki.

Forsaga málsins er sú að fram kom í máli Guðmundar Heiðars Helgasonar sem nýlega keypti eign í Vogabyggð að hann þurfi að sæta því að gras og berjarunni þurfi að vera yfir 50% af litlum séreignafleti. „Okkur finnst pínulítill grasblettur og berjarunni innan lítils skjólveggjar mjög ópraktísk útfærsla,“ er haft eftir Guðmundi í frétt mbl.is um málið. Vill hann gera pall yfir allt séreignasvæðið sem er 10 fermetrar í heild.

Hvergi minnst á pall í skilalýsingu 

„Af hverju þarf þjónustan í borgarkerfinu að vera svona ósveigjanleg? Af hverju mega eigendur eða húsfélagið ekki ráða því hvernig sérafnotareitir eru afhentir? Við getum alla vega lofað ykkur því að um leið og verkinu er lokið, þá fer pallurinn beinustu leið yfir grasblettinn og berjarunnann!“ segir Guðmundur enn fremur í færslu á Facebook.

Í samtali við mbl.is í dag bendir Guðmundur á að í ofanálag telji hann berjarunnann ekki til með að vera sýnilegan öðrum en eigendum auk þess sem ekki er hlið á grindverki sem geri það að verkum að helst þarf að fara með sláttuvél í gegnum stofuna ef eigandi vill slá blettinn. Þá hafi hvergi verið minnst á pall í skilalýsingu frá verktaka og því hafi málið komið flatt upp á hann. 

Hluti af heildarsvip hverfisins 

Pawel segir að þó svo að hverjum og einum kunni að finnast betra að nota grasbletti sína í eitthvað annað en tilgreint er í skipulagi Vogahverfis, sé gott að hafa í huga að þetta sé viðleitni um að halda heildarsvip viðkomandi hverfis. „Svo er annað mál hversu nákvæmt og ítarlegt deiliskipulag eigi að vera. Sjálfur hef ég verið hlynntur meira frelsi en hitt í þessum efnum,“ segir Pawel.

Pawel Bartozek.
Pawel Bartozek. mbl.is/Eggert

Spurður um það hvort ekki sé hægt að fá undanþágu og veita borginni um leið lausn frá því að setja niður berjarunnann og grasblettinn, segir Pawel að slíkt sé hægt en þurfi að fara rétta leið í borgarkerfinu. „Fyrst þarf að beina fyrirspurn og fá ályktun frá skipulagsfulltrúa og ef menn eru ósáttir við þá ályktun þá geta menn beint því til hinna pólitísku fulltrúa í skipulags og samgönguráði og fengið þannig þá pólitísku afstöðu fram,“ segir Pawel. 

„Allir sem byggja hús þurfa að lúta mjög mörgum ákvæðum í deiliskipulagi [...] Menn geta haft skoðun á því hvort hver og ein ákvörðun sé of íþyngjandi, en það er eðli deiliskipulags að það er íþyngjandi,“ segir Pawel enn fremur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert