„Endurskoðandinn er að fara yfir málið til að reyna að fá botn í þetta. Þetta kemur vonandi betur í ljós á næstunni,“ segir Jón Guðbjartsson, stjórnarformaður rækjuverksmiðjunnar Kampa á Ísafirði.
Fyrirtækið fékk á dögunum greiðslustöðvun til þriggja vikna vegna aðsteðjandi fjárhagsvanda. Var brugðið á það ráð eftir að í ljós kom að staða Kampa var umtalsvert verri en áður hafði verið talið.
Að sögn Jóns var staðan allt önnur en fram hafði komið í bókhaldi og ársreikningum félagsins. Nú er unnið að því hörðum höndum að komast að því hvað veldur. Að því er heimildir Morgunblaðsins herma er fjárhagsstaðan miklum mun verri en upphaflega var talið. Hlaupa þær fjárhæðir sem vantar á hundruðum milljóna króna og miklum skuldum hefur verið safnað, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.