Vegna versnandi veðurs hefur veginum um Þverárfjall verðið lokað aftur. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja og skafrenningur á nokkrum leiðum á Norðurlandi samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.
Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum en þæfingsfærð og skafrenningur á Svínadal.
Á Vestfjörðum er víða hálka eða snjóþekja á vegum og sums staðar þæfingsfærð. Stórhríð er á Klettshálsi og blint. Einnig er skafrenningur og lélegt skyggni í Reykhólasveit. Vegfarendum er bent á að aka þarf um vetrarveg við Geiradalsá á Vestfjarðavegi.
Lokað er yfir Dynjandisheiði og athugað verður með mokstur síðar í vikunni. Flateyrarvegur er lokaður og verður ekki opnaður í dag, mánudag, vegna snjóflóðahættu. Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi í Súðavíkurhlíð en hefur verið aflétt á Eyjarfjalli.
Óvissustig er í gildi vegna snjóflóðahættu á Siglufjarðarvegi, Ljósavatnsskarði og Ólafsfjarðarmúla.
Snjóþekja eða hálka er á vegum norðaustanlands og víða éljagangur og skafrenningur. Ófært er á Hólasandi. Við brú yfir Jökulsá á Fjöllum á Mývatnsöræfum flæðir vatn og krapi yfir veg og eru vegfarendur beðnir um að sýna aðgát.
Hálka eða snjóþekja er víðast hvar á Austurlandi en þungfært á Jökulsdalsvegi efri og innst í Breiðdal. Lokað er á Öxi og Breiðdalsheiði.