Grænlendingar fagna Grænlandsskýrslu

Steen Lynge, utanríkisráðherra Grænlands
Steen Lynge, utanríkisráðherra Grænlands

Steen Lynge utanríkisráðherra Grænlands fagnar nýrri Grænlandsskýrslu utanríkisráðherra, sem kynnt var í liðinni viku. „Mér finnst það mjög spennandi og athyglisvert að ríkisstjórn Íslands skuli hafa lagt svo mikið í [gerð skýrslunnar], kannað kosti og útfært fjölmargar tillögur um aukið samstarf Grænlands og Íslands,“ segir Lynge í frétt á vef grænlenska stjórnarráðsins.

„Minn íslenski starfsbróðir, Guðlaugur Þór Þórðarson, og ég höfum einmitt átt fjarfund, þar sem hann kynnti skýrsluna og aðdraganda hennar. Ég er mjög bjartsýnn á þá vinnu og afrakstur, sem leiða mun af góðum fyrirætlunum og tillögum, sem fram koma í skýrslunni,“ bætir Lynge við.

Guðlaugur Þór kynnti Grænlandsskýrsluna fyrir Lynge degi áður en hún var gerð opinber. Við það tækifæri lagði Lynge það til að utanríkisráðherrar landanna myndu í haust kynna skýrsluna í sameiningu á Hringborði norðursins (Arctic Circle), árvissri alþjóðlegri ráðstefnu um málefni norðurslóða í Reykjavík.

Grænlandsskýrslan var unnin af starfshópi sem utanríkisráðherra skipaði árið 2019. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, gegndi þar formennsku, en með honum í hópnum voru þau Unnur Brá Konráðsdóttir og Óttarr Guðlaugsson. Tveir starfsmenn utanríkisráðuneytisins unnu með nefndinni, Hildur H. Sigurðardóttir á fyrri hluta starfstímans en Geir Oddsson á seinni hlutanum. Auk þess unnu Lára Valgerður Kristjánsdóttir og Pétur Hreinsson frá utanríkisráðuneytinu með nefndinni á lokastigum skýrslunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert