„Það var Laugaland sem greip okkur“

Síðan ber yfirskriftina „Laugaland bjargaði mér“ og má þar finna …
Síðan ber yfirskriftina „Laugaland bjargaði mér“ og má þar finna fjölda frásagna þjónustuþega úrræðisins sem og frá starfsfólki þess. Skjáskot af vefsíðunni

Hópur fyrrverandi skjólstæðinga, aðstandenda og fagaðila á stúlknaheimilinu á Laugalandi í Eyjafirði hafa sett á fót síðu sem heldur utan um áskorun þeirra til félags- og barnamálaráðherra og forstjóra barnaverndarstofu um að loka ekki úrræðinu.

Síðan ber yfirskriftina „Laugaland bjargaði mér“ og má þar finna fjölda frásagna þjónustuþega úrræðisins sem og frá starfsfólki þess. 

Undirskriftasöfnun til að mótmæla ákvörðum barnaverndarnefndar um lokun úrræðisins hefur einnig verið sett á fót. 

Starfsmönnum meðferðaheimilisins var tilkynnt um lokun þess þann 20. janúar. Til stendur að loka því þann 30. júní nk. 

Heimilið er ætlað að hjálpa ungum stúlkum með fjölþættan vanda til að fóta sig í lífinu. Í kynningarmyndbandi á síðunni segir að þær hafi m.a. færi til að sækja skóla í sérstakri deild, fara í Verkmenntaskólann á Akureyri eða sækja vinnu á Akureyri í samráði við starfsfólk Laugalands. 

Samkvæmt fjölda frásagna sem lesa má á síðunni hefur meðferðarheimilið hjálpað fjölmörgum fjölskyldum úr erfiðum aðstæðum. 

Síðasta úrræðið sem þurfti

Móðir skjólstæðings skrifar á síðuna:

„Dóttir mín kom á Laugaland fyrir 10 árum síðan.

Hún var þá 14 ára og hafði verið meira en ár í alvarlegri eiturlyfjaneyslu og stjórnlausri áhættuhegðun. Laugaland var ekki fyrsta úrræðið sem hafði verið reynt: MST, Vogur, Stuðlar, lokuð deild Stuðla, MST aftur...

Laugaland reyndist vera síðasta úrræðið sem þurfti. Árangurinn sem náðist á Laugalandi, nánast frá fyrsta degi, var svo mikill að það var kraftaverki líkast og ég er nokkuð viss um að ég hafi notað orðið kraftaverk oft á þessum tíma.“

Markmiðið að deyja fyrir 18 ára afmælið

Kona sem er 25 ára í dag skrifar um hvernig Laugaland bjargaði henni frá sjálfri sér:

„Markmið mitt frá 12 ára aldri var að deyja fyrir 18 ára afmælið mitt.

Ég byrjaði mjög ung að drekka og nota fíkniefni. Engin úrræði dugðu fyrir mig, sama hvert ég fór náði enginn til mín, þá truflaði það mig að vera í meðferðum með strákum og/eða á höfuðborgarsvæðinu.

Það var ekki fyrr en ég var send á Laugaland að ég fékk viðeigandi aðstoð og úrræði sem var sérsniðið fyrir mig.

Þar fann ég fyrir öryggi. Starfsfólkið hjálpaði mér að sjá loksins framtíð. Ég er þakklát fyrir að hafa farið á Laugaland. Þau kenndu mér að lifa og gáfu mér þá hjálp sem ég þurfti.

Ég fékk hjálp frá þeim fyrir 10 árum og er í dag menntuð og með bílpróf, án þeirra tóla sem ég fékk frá þeim væri ég ekki hér í dag.“

Haldreipi fyri ungar stúlkur

Önnur móðir skjólstæðings skrifar: 

„Við fjölskyldan verðum ævinlega þakklát Laugalandi og fólkinu þar. Þegar ég gat ekki meir og var ekki fær um að hjálpa barninu mínu var það Laugaland sem greip okkur.

Ég stend með ykkur og mótmæli lokun þessa haldreipis fyrir ungar stúlkur!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka